


Hvað er markþjálfun?
Markþjálfun er aðferðafræði sem er til þess fallin að hjálpa einstaklingum eða hópum að öðlast skýrari framtíðarsýn og skoða hvernig hægt er að nýta styrkleika til að raungera þá sýn. Markþjálfun hefur notið vaxandi vinsælda hér á landi sem og erlendis.
Við lifum á tímum samfélagslegra breytinga og hraða. Viðfangsefni daglegs lífs geta tekið á okkur hvort sem er í vinnu eða einkalífi. Þá er mikilvægt að auka eigin meðvitund á því hvernig við viljum lifa lífinu. Á hvaða þætti viljum við leggja áherslu, hverjir eru okkar styrkleikar og hvernig forgangsröðum við?
Í samtali spyr markþjálfinn þig opinna krefjandi spurninga sem hreyfa við þér og hjálpa þér að sjá hlutina í nýju ljósi. Markþjálfun er leið til að stuðla að árangri í lífi og starfi. Leið sem skerpir sýn á þá hluti sem skipta máli og auðveldar þér að taka ákvarðandir.
Ávinningur af markþjálfun getur verið margþættur. Markþjálfun getur átt þátt í að bæta samskipti bæði í einkalífi og vinnu. Markþjálfun getur verið góð leið fyrir markþegann þegar kemur að erfiðum ákvörðunum, breytingum og til að skapa jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Einnig hefur verið sýnt fram á að fyrirtæki og stofnanir sem innleiða markþjálfun inn í sitt starf geti dregið úr starfsmannveltu og aukið starfsánægju.
Markþjálfun skorar á þig að leita svara svara við krefjandi spurningum sem geta ef til vill leitt í átt að nýrri stefnu. Markþjálfun gengur út frá því grundvallarsjónarmiði að markþeginn sé sérfræðingur í eigin lífi og starfi. Umræðuefni og markmið geta verið stór og smá og meðal annars falist í að bæta ákveðna hæfni eða taka erfiðar ákvarðanir sem stytta leiðina að settum markmiðum.
Markþjálfun byggir á jafnréttisgrundvelli milli markþjálfa og markþega. Gagnkvæmt traust er þar lykilatriði. Ég sem markþjálfi skuldbind mig til að fara eftir siðareglum ICF (International Coach Fedaration)
https://www.icficeland.is/sidareglur
Mikilvægt er að rugla ekki markþjálfun saman við ráðgjöf, fræðslu eða kennslu. Markþjálfi er ekki ráðgjafi, mentor eða meðferðaraðili. Markþjálfun er ekki sálfræðimeðferð.
Ný tækifæri fást ekki aðeins í upphafi nýs árs heldur blasa þau við okkur á hverjum morgni þegar við vöknum!
